Bandamanna saga er varðveitt í tveimur gerðum: annars vegar styttri útgáfa í handriti frá 15. öld og hins vegar lengri gerð í Möðruvallabók. Sú síðarnefnda er hér lesin.
Brennu-Njáls saga þarfnast engrar kynningar við. Flestir Íslendingar vita af henni og hvaða sess hún hefur í bókmenntum vorum.
Egils saga Skallagrímssonar er og verður okkur Íslendingum ávallt hugleikin, enda ein af stórbrotnustu Íslendingasögunum og talin skrifuð af sjálfum Snorra Sturlusyni.
Eiríks saga rauða segir frá landnámi norrænna manna á Grænlandi og landafundum í Vesturheimi. Er hún sennilega skráð snemma á 13. öld og eins og með flestar aðrar Íslendingasögur er höfundur hennar ókunnur. Hún hefur varðveist í handritunum Hauksbók og Skálholtsbók.
Eyrbyggja saga er um margt merkileg saga, ólík mörgum hinna þekktari, hvað varðar áherslur og efnistök.
Fóstbræðra saga var lengi vel talin með elstu Íslendingasögum, en nú er almennt talið að hún sé með þeim yngri og skrifuð undir lok 13. aldar. Er sagan til í mörgum uppskrifum, m.a. í Hauksbók, Möðruvallabók og Flateyjarbók, þar sem henni er skeytt inn í Ólafs sögu helga.
Gísla saga Súrssonar hefur lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum og Gísli sjálfur ein ástsælasta hetjan sem þær hafa vakið til lífsins. Hefur sagan enda verið kennd í skólum landsins um áraraðir.
Grettis saga hefur löngum verið ein af ástsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um Gretti Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði, sem gekk undir nafninu Grettir sterki, enda var maðurinn ógnarsterkur og lét ekki bugast þótt við forynjur væri að etja.
Gunnlaugs saga hefur lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi er hún skemmtileg og fjallar um efni sem höfðar til fólks. Þá er hún bæði stutt og auðlesin. Hún er í senn hádramatísk ástarsaga og rekur mikil örlög.
Hrafnkels saga Freysgoða er Íslendingasaga og jafnframt frægust allra Austfirðinga sagna. Hefur hún löngum verið mönnum hugleikin, sem m.a. má sjá af því að um enga aðra Íslendingasögu hefur verið skrifað meira nema ef væri Njála.
Hænsna-Þóris saga segir frá Hænsna-Þóri, ógeðfelldum manni sem rís úr fátækt og tekst að gerast gildur bóndi. Honum virðist vera uppsigað við nágranna sína, finnst kannski að þeir líti niður á sig vegna upprunans.
Ingólfur B. Kristjánsson les.