Ólafía Jóhannsdóttir var þjóðþekkt í Noregi fyrir starf sitt í Osló í þágu þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu, fátækra og ekki síst gleðikvenna. Hér segir hún frá ævi sinni og störfum.
Ólöf Rún Skúladóttir les.
Fyrir 67 árum - ferðasaga er frásögn Sigurðar Gunnarssonar af langferð þriggja félaga úr Fljótsdalnum til Reykjavíkur til þess að ná inntöku í gamla Latínuskólann. Frásögnin birtist í Eimreiðinni í janúar 1932.
Sigurður Arent Jónsson les.
Gekk ég yfir sjó og land eftir Kristján Róbertsson er saga íslenskra mormóna sem fluttust til Vesturheims í kjölfar trúboðs á síðari hluta 19. aldar og fram yfir aldamót.
Ingunn Jónsdóttir var frá Melum í Hrútafirði. Hún var húsmóðir í Vatnsdal, gift Birni Sigfússyni alþingismanni. Ingunn hóf að skrifa þegar hún var komin yfir sjötugt. Fyrst kom út á prenti Bókin mín árið 1926 og þar næst Minningar árið 1937.
Helgi Pétursson segir frá för til Grænlands
árið 1897 og kynnum af landi og þjóð.
Lesari er Smári Johnsen.
Erlendur Jónsson starfaði lengi sem bókmenntagagnrýnandi á Morgunblaðinu á þeim árum þegar blaðið var leiðandi í allri menningarumræðu hér á landi. Hér segir hann frá ýmsu sem á daga hans dreif á þessum árum, bæði mönnum og málefnum.
Hér er um að ræða bréf hins raunverulega Jóns Hreggviðssonar til Árna Magnússonar, dagsett 31. júlí 1708, og varðveitt á Landsbókasafninu undir nafninu Hreggviðsþula.
Gunnar Már Hauksson les.
Hundaþúfan og hafið er fyrri viðtalsbókin af tveimur þar sem Matthías Johannessen ræðir við Pál Ísólfsson. Matthías nálgast efnið á varfærinn og gamansaman hátt eins og honum einum er lagið er hann gefur okkur innsýn í stórbrotinn heim Páls sem var einn mesti listamaður síns tíma.
Í dag skein sól er síðari viðtalsbókin af tveimur þar sem Matthías Johannessen ræðir við Pál Ísólfsson. Sú fyrri nefnist Hundaþúfan og hafið.
Þessi frábæra viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Þórberg Þórðarson er engri lík og að margra sögn besta viðtalsbók sem gefin hefur verið út á Íslandi. Hér gefst mönnum tækifæri til þess að kynnast skáldinu Þórbergi eins og hann var.
Jón Steingrímsson skipstjóri segir hér á stórskemmtilegan hátt frá ævintýrum sínum við siglingar um öll heimsins höf. Hér segir frá áfengissmygli, árásum þýskra kafbáta og flugvéla á stríðsárunum, og svo mætti lengi telja.
Hér eru á ferðinni æviminningar hinnar merku konu Guðrúnar Borgfjörð, sem bjó lengst af í Reykjavík og tók eftir ýmsu sem aðrir veittu ekki athygli. Vel skrifuð saga sem veitir góða innsýn í samtíma og umhverfi höfundar.
Emma Björnsdóttir les.
Danski málfræðingurinn og málvísindafrömuðurinn Rasmus Kristján Rask (1787-1832) er flestum Íslendingum kunnur.
Björn Magnússon Ólsen er höfundur þessa minningarrits um Rask, sem fyrst kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1888.
Guðmundur Ingi Kristjánsson les.
Reisubók séra Ólafs Egilssonar er ómissandi heimild um atburðarásina í kringum Tyrkjaránið og þann tíðaranda sem ríkti á Íslandi á 17. öld. Þó stíllinn sé nokkuð stirður var Ólafur eftirtektarsamur og segir um margt skemmtilega frá.
Ritgerð Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal um Reykjavík árið 1900 er bæði ómetanleg heimild um lífið á þessum mótunarárum höfuðstaðarins og skemmtileg frásögn þar sem skáldið og rithöfundurinn fer á kostum og skemmtir okkur með leiftrandi lýsingum á mannlífi og menningu þess tíma.